Heilbrigðisráðherra hefur birt í samráðsgátt tillögur sínar um breytingu á reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs og viðauka IV. Blóðbankinn gerir veigamiklar athugasemdir við tillögur heilbrigðisráðherra um breytingar á reglugerð sem varðar heilsufarsskilmerki blóðgjafa og frávísanir vegna áhættuþátta. Orðalag og innihald í reglugerðardrögunum eru að mati Blóðbankans illa ígrundað og breytingar ekki tímabærar með þeim hætti sem þær eru settar fram. Sjá umsögn í heild sinni undir heilsufarsskilmerki.
Blóðbankinn áréttar að það eru mannréttindi allra að þiggja örugga blóðhluta. Heilbrigðisyfirvöldum og Blóðbankanum ber að neyta allra mögulegra ráða til að tryggja öryggi blóðþega. Það eru á sama tíma mannréttindi blóðgjafa að heilsufarsskilmerki séu byggð á faglegum forsendum. Það er tillaga Blóðbankans að það sé styrkt enn frekar á grundvelli áhættugreiningar heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við fjölda sérfræðinga og hagsmunaaðila á áhættu HIV, sýfilis og annarra sjúkdóma í almennu þýði og meðal sérstakra áhættuhópa, með svipuðum hætti og önnur lönd hafa gert á síðustu 20 árum.