Rhesus

 

Fram til 1939 var blóð til inngjafar eingöngu valið eftir ABO blóðflokkum. Annað slagið olli blóðinngjöf alvarlegum aukaverkunum eða var banvæn. Það sem ekki var vitað var að mótefni gegn Rhesus D blóðflokki geta myndast hjá einstaklingum sem eru ekki með mótefnavakann.

Rauð blóðkorn eru flokkuð Rhesus(D) pósitíf eða negatíf eftir því hvort Rh(D) mótefnavaki er á yfirborði þeirra eða ekki. Ólíkt ABO, Myndast Rh-mótefnin ekki sjálfkrafa á fyrsta aldursári. Rh-D negatíft fólk myndar mótefnið ef Rhesus-D pósitíf blóðkorn komast í blóðrás þeirra. Það getur gerst við blóðgjöf, meðgöngu eða barnsburð. Þegar blóð með Rh-D mótefnavökum kemst í fyrsta skipti í blóðrás Rh-D negatífs manns, getur það tekið líkamann nokkurn tíma að mynda þau. Eftir þetta eru Rhesus-D mótefnin alltaf til staðar í blóði Rhesus-D neikvæða einstaklingsins.

Ef Resus-D neikvæðum einstaklingi sem hefur myndað mótefni er aftur gefið blóð úr Rh-D jákvæðum einstaklingi, festast Rh-D-mótefnin utan á rauðu blóðkornin sem eru með mótefnavakann. Þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir blóðþegann.

Í lok fjórða áratugarins voru gerðar tvær uppgötvanir sem juku öryggi blóðinngjafa til muna. Lýst var aukaverkun eftir blóðinngjöf hjá konu sem fæddi andvana barn. Hún fékk blóð úr eiginmanni sínum í kjölfarið, en hann var af sama ABO blóðflokki og hún. Eftir blóðgjöfina sýndi konan einkenni alvarlegrar aukaverkunar eftir blóðinngjöf. Mótefni var einangrað úr blóði hennar og kekkjaði það rauð blóðkorn eiginmannsins við 20°C og 37°C. Menn töldu að eiginmaðurinn hefði mótefnavaka á rauðu blóðkornunum sem kona hans væri ekki með á sínum rauðu blóðkornum. Fóstrið hefði fengið mótefnavakann í arf frá föðurnum og konan hefði myndað mótefni gegn honum á meðgöngu. Mótefnið í konunni hefði svo kekkjað rauðu blóðkornin sem hún fékk frá eiginmanni sínum. Á svipuðum tíma var greint frá mótefni sem hamstrar og kanínur mynduðu þegar dýrunum var gefið blóð úr Rhesus öpum. Þetta mótefni kekkjaði um 85% rauðra blóðkorna úr mönnum. Var þetta mótefni kallað Rhesus.

 

Frekari rannsóknir leiddu til þess að það fannst hugsanleg orsök nýburagulu (HDN „Hemolytic Disease of the Newborn”) og aukaverkana eftir blóðinngjöf (HTR=”Hemolytic Transfusion Reaction”). Þessi hugsanlega orsök var anti-D blóðflokkamótefnið.

Um miðjan fimmta áratuginn höfðu fundist fimm mismunandi mótefnavakar í Rhesus-blóðflokkakerfinu. Í dag eru þekktir allt að 50 mismunandi mótefnavakar í Rhesus-kerfinu, og er það eitt af flóknustu blóðflokkakerfunum.

Rhesus-mótefnavakarnir eru mjög mótefnahvetjandi (“immunogenic”) og er D mótefnavakinn sterkasti mótefnavaldurinn. Talið er að 50-75% þeirra Rh D negatífu einstaklinga sem hafa komist í snertingu við Rh D pósitíf rauð blóðkorn myndi anti-D. Nýlega hafa komið fram vísbendingar um að þessar tölur séu aðeins of háar.

Rhesus-mótefni geta haldist í blóðvökva í mörg ár. Einstaklingar sem hafa einhvern tíma greinst með Rhesus mótefni geta fengið alvarlegar aukaverkanir ef þeir komast í snertingu við mótefnavakann aftur. Þess vegna er mjög mikilvægt að kanna blóðgjafa- og mótefnasögu sjúklings fyrir blóðinngjöf.

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania