HLA mótefni tengt blóðflögugjöf

Áður en konur koma til greina sem blóðflögugjafar þarf að taka blóðsýni til að kanna hvort HLA mótefni sem geta myndast við meðgöngu séu til staðar. Ef þau eru til staðar er ekki æskilegt að konan sé blóðflögugjafi. 

Ástæðan fyrir þessu er mjög sjaldgæfur en alvarlegur fylgikvilli (TRALI, Transfusion-Related Acute Lung Injury) sem getur komið við inngjöf blóðflagna til sjúklinga. Meginorsökin er talin vera viðbrögð blóðþega/sjúklings við HLA mótefnum sem geta verið til staðar í blóðvökva blóðgjafans. Við inngjöf geta þessi HLA mótefni valdið því að blóðvökvi lekur inn í lungu sjúklingsins og þannig orsakað bráðan lungnabjúg. 

Ef engin HLA mótefni eru til staðar má konan verða blóðflögugjafi ef önnur skilmerki fyrir blóðflögugjöf eru uppfyllt.

Þegar niðurstöður mælinga liggja fyrir mun Blóðbankinn hafa samband við blóðgjafann símleiðis og upplýsa um hvort HLA mótefni eru til staðar og hvort viðkomandi geti gefið blóðflögur með blóðskilju. Nauðsynlegt er að mæla HLA mótefni fyrir fyrstu blóðflögugjöf og síðan eftir hverja meðgöngu eftirleiðis.

Mikilvægt er að taka fram að tilvist þessara HLA mótefna hefur enga þýðingu fyrir heilsufar eða líðan hraustra einstaklinga. Þeim konum sem hafa mælanleg HLA mótefni býðst áfram að gefa heilblóð sem er mikilvægt framlag til þess að viðhalda rauðkornaþykknisbirgðum Blóðbankans.

Frekari upplýsingar um TRALI aukaverkanir má m. a. lesa hér:

www.transfusionmedicine.ca/articles/transfusion-related-acute-lung-injury-trali 

Byggir á LiSA vefumsjónarkerfi frá Advania