Fara beint í efnið
Blóðbankinn Forsíða
Blóðbankinn Forsíða

Blóðbankinn

Blóðflokkar

ABO blóðflokkakerfið

Blóðflokkarnir heita A, B, O og AB. Þinn blóðflokkur ræðst af því hvort þú sért með A eða B mótefnavaka á rauðu blóðkornunum þínum.

  • O flokkur; hvorki A né B mótefnavakar

  • A flokkur; aðeins A mótefnavakar

  • B flokkur; aðeins B mótefnavakar

  • AB flokkur; bæði A og B mótefnavakar

Skipting blóðflokka hjá Íslendingum

Skipting blóðflokka er mismunandi eftir löndum. Á Íslandi er O flokkur algengastur og AB sjaldgæfastur.

  • O blóðflokkur - 54%

  • A blóðflokkur - 33%

  • B blóðflokkur - 10,5%

  • AB blóðflokkur - 2,5%

Rhesus flokkar

Mótefnavakar í Rh kerfinu eru prótein sem finnast á yfirborði rauðu blóðkornanna. Mikilvægasti mótefnavakinn er D mótefnavakinn og er stuðst við hann þegar Rhesus er ákveðinn. Ef þú ert með D mótefnavakann, þá ertu Rhesus jákvæður (RhD pos) og ef þú ert ekki með það þá ertu Rhesus neikvæður (RhD neg).

85% Íslendinga eru Rhesus pós (Rh+)
15% Íslendinga eru Rhesus neg (Rh-)

Neyðarblóð

O mínus blóð er neyðarblóð og er sérstakt fyrir þær sakir að lang flestir geta þegið það. Í því eru hvorki A, B eða Rhesus mótefnavakar.

Það er gefið:

  • einstaklingum sem eru í blóðflokki O mínus

  • fólki sem er í neyð, þegar ekki vinnst tími til að kanna blóðflokk blóðþega

  • ungabörnum og fyrirburum sem þurfa á blóðgjöf að halda

  • þegar skortur verður í öðrum blóðflokkum

Við miklar blæðingar getur einn blóðþegi þurft marga lítra af blóði, því þarf O mínus blóð að vera tiltækt á skurðstofum, neyðarmóttökum og helstu sjúkrastofnunum úti á landi.

Til þess að viðhalda nauðsynlegum O mínus blóðbirgðum þurfum við að fá blóðgjafa í O mínus blóðflokki daglega.

Því leggur Blóðbankinn ríka áherslu á að finna O mínus blóðgjafa.